Expectus valið Fyrirtæki ársins 2022

Expectus hefur verið valið Fyrirtæki ársins 2022 í flokki meðalstórra fyrirtækja, samkvæmt árlegri vinnumarkaðskönnun VR sem kynnt var 19. maí 2022. Þetta er í fjórða sinn sem Expectus hlýtur verðlaunin Fyrirtæki ársins, en fyrirtækið hefur ýmist hlotið titilinn Fyrirtæki ársins eða Fyrirmyndarfyrirtæki árlega síðan 2016.
„Það er okkur mikill heiður að hljóta þessi verðlaun og erum við ótrúlega stolt af árangrinum. Við viljum vera stjórnunarleg fyrirmynd og við leggjum okkur fram við að skapa starfsanda og vinnuumhverfi eins og best verður á kosið. Samvinna einkennir allt okkar starf, bæði innan fyrirtækisins og gagnvart viðskiptavinum og er ég þakklátur fyrir hversu vel hefur tekist til og við munum nýta þessa viðurkenningu sem frekari hvatningu við að byggja upp teymið og gera gott enn betra” segir Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Expectus.
VR hefur staðið fyrir könnuninni í tvo áratugi en markmið hennar er að gefa starfsfólki tækifæri til að koma viðhorfum sínum varðandi vinnustaðinn á framfæri. Könnunin er einnig vettvangur starfsfólks til að koma því á framfæri hvað vel er gert og hvað betur mætti fara innan vinnustaða. Horft er til níu lykilþátta í starfsumhverfi fyrirtækja, m.a. til starfsanda, jafnréttis, vinnuaðstöðu og sveigjanleika í vinnu svo eitthvað sé nefnt.
Hafðu samband
Fylltu út formið hér að neðan og við munum hafa samband eins fljótt og hægt er.
Contact Us
