Guðrún Valgerður og Sigríður Dögg ráðnar til Expectus Finance

Expectus Finance hefur ráðið til sín tvo nýja ráðgjafa, Guðrúnu Valgerði Bjarnadóttur og Sigríði Dögg Sigmarsdóttir, sem ganga til liðs við vaxandi teymi fyrirtækisins. Með ráðningunum styrkir Expectus Finance enn frekar þjónustu sína við fyrirtæki sem leita að sveigjanlegum og faglegum lausnum á sviði fjármálaferla, bókhalds- og launaþjónustu og ráðgjafar á fjármálasviði.
Guðrún Valgerður er ráðin sem ráðgjafi og verkefnastjóri í ráðgjafaþjónustu Expectus Finance. Hún býr yfir víðtækri reynslu af reikningshaldi, uppgjörum og innleiðingu fjárhagskerfa. Hún hefur starfað náið með stjórnendum að því að bæta fjármálaferla, auka yfirsýn og styðja við breytingar í rekstri. Guðrún starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Deloitte og er með BSc í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún er að ljúka meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands.
Sigríður Dögg er ráðin sem verkefnastjóri í bókhalds- og launaþjónustu og hefur starfað við bókhald, greiningar, mánaðaruppgjör og daglegan rekstur fyrirtækja. Hún er viðurkenndur bókari og hefur komið að flestum þáttum bókhalds fyrir fyrirtæki af ólíkum stærðum og í fjölbreyttum atvinnugreinum. Sigríður starfaði áður hjá Deloitte og Eignaumsjón og býr einnig yfir mikilli reynslu af hótelrekstri frá störfum sínum sem aðalbókari hjá Hótel Sögu.
„Við sjáum sífellt fleiri fyrirtæki leita eftir samstarfsaðila sem getur tekið ábyrgð á fjármálum í breiðari skilningi – ekki eingöngu sinnt bókhaldi, heldur einnig stutt stjórnendur með skýrri yfirsýn og betri ákvörðunum. Með Guðrúnu og Sirrý eflum við þessa getu enn frekar,“ segir Heiðdís Rún Guðmundsdóttir, ein stofnenda og eigenda Expectus Finance.
Expectus Finance var stofnað á síðasta ári og er að vaxa hratt. Fyrirtækið leggur áherslu á skilvirka og klæðskerasniðna fjármálaþjónustu og ráðgjöf fyrir fyrirtæki þar sem regluleg uppgjör, yfirsýn og fagleg fjármálastjórn skipta sköpum. Ráðningarnar endurspegla aukna eftirspurn eftir fjármálaþjónustu sem fer lengra en hefðbundið bókhald og styður fyrirtæki sem standa frammi fyrir vexti, breytingum og auknum kröfum til fjármálastjórnunar.
Markmið Expectus Finance er að gera fjármálagögn gagnleg í daglegum rekstri; ekki bara rétt bókuð. Með skilvirkum verkferlum tryggir Expectus Finance að fjármálagögn séu rétt og uppfærð, en í samstarfi við Expectus ehf. er hægt að nýta og tengja þessi gögn síðan í vöruhús gagna, áætlanakerfi og mælaborð. Þetta veitir stjórnendum skýrari yfirsýn og traustan grunn fyrir upplýsta ákvarðanatöku.
Í dag starfa í kringum 25 sérfræðingar hjá Expectus og fyrirtækið hefur verið valið bæði Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki VR síðustu ár.
Hafðu samband
Fylltu út formið hér að neðan og við munum hafa samband eins fljótt og hægt er.
Contact Us



