Expectus Finance stofnað

Á dögunum stofnuðum við fyrirtækið Expectus finance ásamt Heiðdísi Rún Guðmundsdóttur, Steinu M. Lazar Finnsdóttur og Sunnu Dóru Einarsdóttur sem allar störfuðu áður hjá Deloitte. Allar eru þær hluthafar í Expectus Finance. Sameiginleg reynsla þeirra spannar allt frá stjórnun fjármáladeilda og stefnumótunar til sjálfvirknivæðingar og innleiðingar á fjárhagskerfum.
Fyrirtækið var stofnað með það að markmiði að efla stuðning við fjármálasvið íslenskra fyrirtækja með ráðgjöf, þjálfun og þjónustu sem auðveldar fyrirtækjum að draga úr flækjustigi í daglegum rekstri.
„Við sjáum að hefðbundin fjármálasvið verja of miklum tíma í bókhaldsverkefni – á kostnað þess að nýta tímann í að styðja stjórnendur með gögnum og innsæi sem auka arðsemi og vöxt. Það er leiðarljós okkar að brjóta upp þetta mynstur með nálgun þar sem ferlar, fólk og tækni vinna saman til að skapa raunverulegt virði fyrir fyrirtæki og stofnanir,“ segir Sunna Dóra Einarsdóttir, einn af stofnendum Expectus Finance.
Expectus Finance býður upp á bestun fjármála- og rekstrarferla, vinnustofur, námskeið, tímabundnar mannaflalausnir fyrir allar stöður fjármáladeilda auk útvistunar á bókhaldi, launum og skýrslugerð.
Félagið segir útvistunarþjónustuna byggja á markvissri notkun á tækni til að tryggja rauntímagögn og gera regluleg uppgjör einföld og skilvirk. Minni fyrirtæki geti einnig nýtt sér útvistaðan fjármálastjóra til að fá faglega yfirsýn án þess að ráða í fullt stöðugildi.
„Það hefur orðið gríðarleg framþróun í fjárhags- og rekstrarkerfum á undanförnum árum, en þjálfun og notkun þeirra hefur ekki alltaf fylgt tækninni í sama takti,“ segir Sunna Dóra.
„Þarna sjáum við stór tækifæri til að auka virði fjármálasviða með því að nýta kerfin til fulls. Saman búum við yfir djúpri þekkingu og reynslu af helstu fjárhagskerfum sem notuð eru á íslenskum markaði – þar á meðal Microsoft Business Central (BC), Microsoft Dynamics F&O, Oracle (Orri), Nav, Ax, DK, SAP, Reglu og Payday – og við sjáum að mörg fyrirtæki í einkageiranum og hjá hinu opinbera eiga enn mikið inni þegar kemur að því að hámarka notkun og þekkingu á þessum lausnum.“
Í dag starfa í kringum 25 sérfræðingar hjá Expectus og fyrirtækið hefur verið valið bæði Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki VR síðustu ár.
„Þetta er mjög ánægjulegt skref fyrir Expectus samstæðuna sem hefur frá árinu 2009 sérhæft sig í viðskiptagreind, rekstrarráðgjöf og stefnumótun. Við útvíkkum þjónustuna á sviði fjármála með stofnun Expectus Finance með djúpri sérþekkingu þeirra Sunnu, Heiðdísar og Steinu sem við væntum að skili enn meiri árangri fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Reynir Ingi Árnason, framkvæmdastjóri Expectus og stjórnarformaður Expectus Finance.
Í stjórninni sitja einnig Sunna Dóra og Ragnar Þórir Guðgeirsson, stofnandi og stjórnarformaður Expectus.
Sunna Dóra Einarsdóttir var áður meðeigandi hjá Deloitte og starfaði þar í 14 ár, bæði í Danmörku og á Íslandi, m.a. sem fjármálastjóri og stýrði hún sviði Viðskiptalausna Deloitte. Hún hefur lokið MSc í Economics & Management frá Aarhus University og sinnt kennslu við Aarhus University, Copenhagen Business School, Háskólann í Reykjavík og Deloitte University í París.
Heiðdís Rún Guðmundsdóttir starfaði áður sem Senior Manager hjá Deloitte og var þar áður vörustjóri hjá Icepharma hf. Hún er með MSc í Management frá Jönköping International Business School, auk þess að hafa klárað CFO Programme Deloitte hjá Henley Business School í London og sinnt kennslu við Háskóla Íslands.
Steina M. Lazar Finnsdóttir stýrði útvistunarsviði Deloitte og bar ábyrgð á gæðum og hagræðingu ferla ásamt því að hafa stýrt þjálfun starfsmanna sviðsins. Steina er með BSc í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og er einnig Viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík.
Hafðu samband
Fylltu út formið hér að neðan og við munum hafa samband eins fljótt og hægt er.
Contact Us



