Exmon Software selt til TimeXtender

Danska hugbúnaðarfyrirtækið TimeXtender hefur keypt íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Exmon Software. 


Exmon Software var stofnað af ráðgjafarfyrirtækinu Expectus árið 2014 sem dótturfélag en hefur verið rekið í aðskildu eignarhaldi undanfarin tvö ár. Hjá félaginu starfa 14 sérfræðingar í hugbúnaðarþróun og -sölu. Aðalsöluvara fyrirtækisins er hugbúnaðarlausnin Exmon sem er leiðandi lausn í gagnagæðum og gagnaumsjón. Viðskiptavinir nýta Exmon til að finna villur og frávik í tölvukerfum og daglegum ferlum, sem getur meðal annars komið í veg fyrir tekjutap eða brotalamir í ferlum sem annars gætu farið fram hjá stjórnendum. 


Viðskiptavinum Exmon fer hratt fjölgandi víðsvegar um Evrópu enda hefur fyrirtækið náð að byggja upp öflugt net samstarfsaðila sem selja og innleiða lausnina hjá fyrirtækjum í flestum atvinnugreinum.

„Síðastliðin ár hafa farið í að koma Exmon á framfæri erlendis og við sjáum mikinn áhuga og árangur þar. Við höfum unnið náið með TimeXtender undanfarið og eru samlegðaráhrifin fyrir bæði vörurnar okkar og viðskiptavini miklar og því ákváðum við að fara í þessa vegferð saman. Við sjáum mikil tækifæri í því að kynna Exmon-vörurnar fyrir viðskiptavinahópi TimeXtender og stækka þar með markaðinn fyrir Exmon. Gert er ráð fyrir að Exmon verði áfram með starfsemi á Íslandi.


Við hlökkum mikið til samstarfsins, menning fyrirtækjanna byggir á líkum grunni og innan þeirra er mikil þekking á stjórnun og notkun gagna sem er hratt vaxandi viðfangsefni í nútímarekstri. Við eigum eftir að gera góða hluti saman sem nýtast viðskiptavinum bæði hér heima og erlendis,“ segir Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Exmon Software.


„Sameining félaganna mun gera okkur mögulegt að styrkja Exmon-hugbúnaðinn enn frekar, auka samþættingu við núverandi lausnir TimeXtender og hraða vöruþróun. Við erum að sjá mikla framþróun í gagnalausnum á heimsvísu með tilkomu nýrra skýja- og gervigreindarlausna sem gera kröfu um meiri gæði og hraðari úrvinnslu á gögnum. 


Ég er sannfærður um að með sameiningu við TimeXtender náum við sameiginlega að búa til mjög öflugt og spennandi lausnaframboð fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Kristinn Már Magnússon, tæknistjóri Exmon Software.


„Með sameiningu við Exmon erum við að taka stórt skref í að auka virði okkar lausnaframboðs. Lausnin okkar innifelur nú bætt stjórnkerfi gagna sem einfaldar verulega alla umsýslu gagna
fyrir okkar viðskiptavini. “ - Heine Krog Iversen, CEO hjá TimeXtender. 


TimeXtender er danskt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar sjálfvirknivæðingarlausnir sem einfalda og flýta ferlum í uppbyggingu á vöruhúsi gagna. Hugbúnaðinn nota yfir 3.000 viðskiptavinir víðsvegar um heim.

Hafðu samband

Fylltu út formið hér að neðan og við munum hafa samband eins fljótt og hægt er.

Contact Us

By Sigrún Anna January 21, 2026
Expectus Finance hefur ráðið til sín tvo nýja ráðgjafa, Guðrúnu Valgerði Bjarnadóttur og Sigríði Dögg Sigmarsdóttir, sem ganga til liðs við vaxandi teymi fyrirtækisins. Með ráðningunum styrkir Expectus Finance enn frekar þjónustu sína við fyrirtæki sem leita að sveigjanlegum og faglegum lausnum á sviði fjármálaferla, bókhalds- og launaþjónustu og ráðgjafar á fjármálasviði. Guðrún Valgerður er ráðin sem ráðgjafi og verkefnastjóri í ráðgjafaþjónustu Expectus Finance. Hún býr yfir víðtækri reynslu af reikningshaldi, uppgjörum og innleiðingu fjárhagskerfa. Hún hefur starfað náið með stjórnendum að því að bæta fjármálaferla, auka yfirsýn og styðja við breytingar í rekstri. Guðrún starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Deloitte og er með BSc í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún er að ljúka meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands. Sigríður Dögg er ráðin sem verkefnastjóri í bókhalds- og launaþjónustu og hefur starfað við bókhald, greiningar, mánaðaruppgjör og daglegan rekstur fyrirtækja. Hún er viðurkenndur bókari og hefur komið að flestum þáttum bókhalds fyrir fyrirtæki af ólíkum stærðum og í fjölbreyttum atvinnugreinum. Sigríður starfaði áður hjá Deloitte og Eignaumsjón og býr einnig yfir mikilli reynslu af hótelrekstri frá störfum sínum sem aðalbókari hjá Hótel Sögu. „Við sjáum sífellt fleiri fyrirtæki leita eftir samstarfsaðila sem getur tekið ábyrgð á fjármálum í breiðari skilningi – ekki eingöngu sinnt bókhaldi, heldur einnig stutt stjórnendur með skýrri yfirsýn og betri ákvörðunum. Með Guðrúnu og Sirrý eflum við þessa getu enn frekar,“ segir Heiðdís Rún Guðmundsdóttir, ein stofnenda og eigenda Expectus Finance. Expectus Finance var stofnað á síðasta ári og er að vaxa hratt. Fyrirtækið leggur áherslu á skilvirka og klæðskerasniðna fjármálaþjónustu og ráðgjöf fyrir fyrirtæki þar sem regluleg uppgjör, yfirsýn og fagleg fjármálastjórn skipta sköpum. Ráðningarnar endurspegla aukna eftirspurn eftir fjármálaþjónustu sem fer lengra en hefðbundið bókhald og styður fyrirtæki sem standa frammi fyrir vexti, breytingum og auknum kröfum til fjármálastjórnunar. Markmið Expectus Finance er að gera fjármálagögn gagnleg í daglegum rekstri; ekki bara rétt bókuð. Með skilvirkum verkferlum tryggir Expectus Finance að fjármálagögn séu rétt og uppfærð, en í samstarfi við Expectus ehf. er hægt að nýta og tengja þessi gögn síðan í vöruhús gagna, áætlanakerfi og mælaborð. Þetta veitir stjórnendum skýrari yfirsýn og traustan grunn fyrir upplýsta ákvarðanatöku.  Í dag starfa í kringum 25 sérfræðingar hjá Expectus og fyrirtækið hefur verið valið bæði Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki VR síðustu ár.
By Sigrún Anna November 5, 2025
Á dögunum stofnuðum við fyrirtækið Expectus finance ásamt Heiðdísi Rún Guðmundsdóttur, Steinu M. Lazar Finnsdóttur og Sunnu Dóru Einarsdóttur sem allar störfuðu áður hjá Deloitte. Allar eru þær hluthafar í Expectus Finance. Sameiginleg reynsla þeirra spannar allt frá stjórnun fjármáladeilda og stefnumótunar til sjálfvirknivæðingar og innleiðingar á fjárhagskerfum. F yrirtækið var stofnað með það að markmiði að efla stuðning við fjármálasvið íslenskra fyrirtækja með ráðgjöf, þjálfun og þjónustu sem auðveldar fyrirtækjum að draga úr flækjustigi í daglegum rekstri. „Við sjáum að hefðbundin fjármálasvið verja of miklum tíma í bókhaldsverkefni – á kostnað þess að nýta tímann í að styðja stjórnendur með gögnum og innsæi sem auka arðsemi og vöxt. Það er leiðarljós okkar að brjóta upp þetta mynstur með nálgun þar sem ferlar, fólk og tækni vinna saman til að skapa raunverulegt virði fyrir fyrirtæki og stofnanir,“ segir Sunna Dóra Einarsdóttir , einn af stofnendum Expectus Finance. Expectus Finance býður upp á bestun fjármála- og rekstrarferla, vinnustofur, námskeið, tímabundnar mannaflalausnir fyrir allar stöður fjármáladeilda auk útvistunar á bókhaldi, launum og skýrslugerð. Félagið segir útvistunarþjónustuna byggja á markvissri notkun á tækni til að tryggja rauntímagögn og gera regluleg uppgjör einföld og skilvirk. Minni fyrirtæki geti einnig nýtt sér útvistaðan fjármálastjóra til að fá faglega yfirsýn án þess að ráða í fullt stöðugildi. „Það hefur orðið gríðarleg framþróun í fjárhags- og rekstrarkerfum á undanförnum árum, en þjálfun og notkun þeirra hefur ekki alltaf fylgt tækninni í sama takti,“ segir Sunna Dóra. „Þarna sjáum við stór tækifæri til að auka virði fjármálasviða með því að nýta kerfin til fulls. Saman búum við yfir djúpri þekkingu og reynslu af helstu fjárhagskerfum sem notuð eru á íslenskum markaði – þar á meðal Microsoft Business Central (BC), Microsoft Dynamics F&O, Oracle (Orri), Nav, Ax, DK, SAP, Reglu og Payday – og við sjáum að mörg fyrirtæki í einkageiranum og hjá hinu opinbera eiga enn mikið inni þegar kemur að því að hámarka notkun og þekkingu á þessum lausnum.“ Í dag starfa í kringum 25 sérfræðingar hjá Expectus og fyrirtækið hefur verið valið bæði Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki VR síðustu ár. „Þetta er mjög ánægjulegt skref fyrir Expectus samstæðuna sem hefur frá árinu 2009 sérhæft sig í viðskiptagreind, rekstrarráðgjöf og stefnumótun. Við útvíkkum þjónustuna á sviði fjármála með stofnun Expectus Finance með djúpri sérþekkingu þeirra Sunnu, Heiðdísar og Steinu sem við væntum að skili enn meiri árangri fyrir okkar viðskiptavini,“ segir Reynir Ingi Árnason , framkvæmdastjóri Expectus og stjórnarformaður Expectus Finance. Í stjórninni sitja einnig Sunna Dóra og Ragnar Þórir Guðgeirsson, stofnandi og stjórnarformaður Expectus. Sunna Dóra Einarsdóttir var áður meðeigandi hjá Deloitte og starfaði þar í 14 ár, bæði í Danmörku og á Íslandi, m.a. sem fjármálastjóri og stýrði hún sviði Viðskiptalausna Deloitte. Hún hefur lokið MSc í Economics & Management frá Aarhus University og sinnt kennslu við Aarhus University, Copenhagen Business School, Háskólann í Reykjavík og Deloitte University í París. Heiðdís Rún Guðmundsdóttir starfaði áður sem Senior Manager hjá Deloitte og var þar áður vörustjóri hjá Icepharma hf. Hún er með MSc í Management frá Jönköping International Business School, auk þess að hafa klárað CFO Programme Deloitte hjá Henley Business School í London og sinnt kennslu við Háskóla Íslands.  Steina M. Lazar Finnsdóttir stýrði útvistunarsviði Deloitte og bar ábyrgð á gæðum og hagræðingu ferla ásamt því að hafa stýrt þjálfun starfsmanna sviðsins. Steina er með BSc í Viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og er einnig Viðurkenndur bókari frá Háskólanum í Reykjavík.