444 9800
Vegmúla 2, 108 Reykjavík

Blogg

Hverja snertir tæknibyltingin?

Það er spennandi að upplifa tæknibyltinguna sem nú fleygir fram um heim allan með orðum eins og gervigreind, sýndarveruleika, algrímum og skýjalausnum. Ekki allir stjórnendur tengja við þá orðræðu sem á sér stað og enn færri tengja hana við starfsemi eigin fyrirtækis og hugsa sem svo að þetta eigi örugglega bara við um tæknifyrirtæki. En hvað er tæknifyrirtæki? Á það yfirhöfuð við að tala enn þá um tæknifyrirtæki sem sérstakan hóp fyrirtækja?

Hröð framþróun í tækni lætur ekkert fyrirtæki ósnortið, sama í hvaða geira það starfar. Öll þurfa þau að huga að tæknibyltingunni og undirbúa hvernig þau ætla ekki bara að mæta henni heldur nýta hana sér til að hámarka árangur sinn í samkeppni á markaði. Að gera fyrirtækið stafrænt snýst ekki um að vera sýnilegt á samfélagsmiðlum, eða að öll sala og markaðssetning fari fram í gegnum netið. Að vera stafrænt fyrirtæki snýst um að lifa af og ná árangri í sífellt tæknidrifnara samfélagi, þar sem tími og staðsetning skipta sífellt minna máli. Þar sem aðal samkeppnin er ekki lengur bara heimafyrir heldur frá fyrirtækjum hinum megin á hnettinum.

Þau fyrirtæki sem ná best að aðlaga viðskiptalíkan sitt og ferla að sífellt tæknivæddara umhverfi munu skara fram úr. Þau sem sjá fyrir og undirbúa sig undir að allir ferlar og öll virkni í hverju fyrirtæki mun verða háð tækni á einn eða annan hátt. Þetta á einnig við um fyrirtæki í geirum þar sem tæknin virðist alla jafna eiga minna erindi. Samkvæmt Boston Consulting Group mun hugbúnaður brátt leysa af hólmi vinnu 30-50% ungra lögfræðinga á lögfræðistofum í Þýskalandi og gervigreindarbúnaður sér nú um útreikninga hjá japönsku tryggingafélagi sem áður voru verkefni þrjátíu og fjögurra starfsmanna.

Tækniþróunin snertir ekki bara fyrirtæki, hún hefur líka áhrif á heilu samfélögin. Stafræn samfélög snúast um það að gera borgir snjallari, meira umhverfisvænar og öruggari. Þau snúast um það hvernig tæknin getur hjálpað okkur að búa lengur heima í stað þess að liggja á sjúkrahúsgöngum og það hvernig tæknin getur hjálpað okkur að lækna krabbamein og koma í veg fyrir lífshættulega sjúkdóma. Stjórnendur fyrirtækja jafnt sem stjórnvöld ættu að bjóða velkomið hið spennandi verkefni að huga að samkeppnishæfni sinni með stafrænni byltingu.

Deila   
Anna Björk Bjarnadóttir

Framkvæmdastjóri / Managing Director Expectus Software │ Ráðgjafi / Consultant