444 9800
Vegmúla 2, 108 Reykjavík

Blogg

Hvað er þetta ský eiginlega og hvað er þarna „uppi“?

Síðustu ár, líklega svona síðustu 4-5 hefur verið mikið fjallað um skýið (The Cloud) eða skýjalausnir í tengslum við upplýsingatæknilausnir og þjónustu. Ég man eftir því að ég var staddur á Gartner ráðstefnu í Cannes haustið 2010 og þá var fullyrt að “skýið“ (The Cloud) væri næsta stóra stefnubreytingin í upplýsingatækni fyrirtækja. Jafnframt var nefnt að þau fyrirtæki sem ekki myndu tileinka sér lausnir í skýinu í heild sinni eða að hluta á næstu árum yrðu eftirbátar annarra fyrirtækja þegar kemur að framþróun og hagkvæmri notkun á upplýsingatækni.

Gartner hefur gjarnan haft rétt fyrir sér með strauma og stefnur í upplýsingatækni og þeir sannarlega hittu naglann á höfuðið í tengslum við skýjalausnir (Cloud Computing). Nú til dags stytta menn sér leið og kalla þetta einfaldlega skýið.

 

En hvað er svona merkilegt við skýið, af hverju ættu fyrirtæki að íhuga þennan valkost og með hvaða hætti? Ég ætla gera mitt besta til að útskýra skýjalausnir án þess að detta of djúpt ofan í tæknilega högun þeirra, í þeim tilgangi að varpa ljósi á þetta mjög svo loðna hugtak. Confused smile

 

Skýjalausnir í hnotskurn

Skýjalausnir hafa í raun verið í boði mun lengur en við kannski gerum okkur grein fyrir. Hugsanlega erum við líka að nota skýjalausnir án þess að vitað það. Dæmi um algengar skýjalausnir fyrir almenning eru: Spotify, Gmail, Google Drive, Dropbox, Microsoft Onedrive. Dæmi um algengar skýjalausnir fyrir fyrirtæki eru: Office 365, Salesforce, Microsoft Azure. Allar eiga þessa lausnir það sameiginlegt að við skráum okkur fyrir áskrift af tiltekinni þjónustu sem við ýmist fáum “frítt” eða greiðum fyrir. Okkur er nokkuð sama hvaðan eða hvar nákvæmlega þessi þjónusta er staðsett svo framarlega sem við þurfum á henni að halda, hún sé áreiðanleg, við höfum gott aðgengi að henni og við getum nýtt okkur hana þegar okkur hentar.

Mynd fengin að láni frá WikipediaMeginástæða þess að farið var að bjóða upp á skýjalausnir voru til að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri tölvukerfa og að geta boðið fyrirtækjum aðgang að þjónustu/lausnum  í áskrift og gegn vægara gjaldi en áður. Í skýjalausnum ná fyrirtæki fram stærðarhagkvæmni og geta fínstillt afköst eftir því hvað álag er mikið eða lítið á hverjum tímapunkti.

Í stað þess að kaupa hugbúnaðarleyfi í miklu magni til nokkurra ára, án þess kannski að vera með skýra áætlun um hvernig nota á og innleiða á þann búnað, er nú hægt að kaupa fá eintök í einu (jafnvel byrja á einu) og bæta svo við eftir þörfum. Gott dæmi um þetta er Office 365 frá Microsoft. Microsoft hefur jafnframt gefið það út að fjárfestingar þeirra í rannsóknum og þróun munu stóraukast á sviði skýjalausna á næstu árum.

Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir að þegar verið er að fjalla um skýið þá er ekki bara eitt ský í boði, það eru mörg ský í boði og ýmsar tegundir skýjalausna, allt eftir því hvert viðfangsefnið er. Helstu tegundir skýjalausna eru eftirfarandi:

Myndin hér að ofan lýsir því ágætlega hvað fellur í hverja tegund. En eru skýjalausnir fyrir öll fyrirtæki eða bara afmarkaðan hóp fyrirtækja og í hvaða tilfellum henta þær og hvenær ekki?

 

Skýjalausnir fyrir fyrirtæki

Stutta svarið við spurningunni hér að ofan er í raun mjög einfalt, skýjalausnir henta allflestum ef ekki öllum fyrirtækjum og það skiptir litlu í hvaða starfsemi fyrirtækin eru. Skýjalausnir fyrir fyrirtækja hafa þróast verulega síðustu ár og hafa fyrirtæki á borð við Microsoft, Salesforce, IBM, Google lagt sitt að mörkum að tryggja betri, áreiðanlegri og öruggari þjónustu. Sem dæmi um það þá heldur Microsoft úti vefsíðu þar sem öryggismál og áreiðanleiki Office 365 er útlistuð.

Fyrirtæki ættu að skoða vel þann valkost að setja hluta af sínum upplýsingatæknirekstri í skýjalausnir. Fyrsta skrefið er að meta núverandi ástand upplýsingatæknirekstrarins, búnað, rekstur, kostnað og innri og ytri þjónustu. Það er heldur ekki hægt að setja fram einhverja eina nálgun fyrir öll fyrirtæki að færa sig yfir í skýjalausnir. Fyrirtæki eru hvert um sig með mismunandi þarfir og mismunandi áherslur sem ráða því í hvaða skrefum skýjainnleiðing á sér stað. Helstu drifkraftar slíkrar innleiðingar ættu að vera eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum:

  • Bættari og áreiðanlegri þjónusta
  • Lækkun rekstrarkostnaðar
  • Öryggi upplýsinga
  • Aðgengi starfsmanna til vinnu og samskipta
  • Aðgengi að nýjustu tækni

Það er algengt að horft sé of einhliða á kostnaðarsjónarmiðið þegar rætt er um hagræðingu af skýjalausnum. Að mínu mati er það aðeins ein hlið á teningnum og skoða þarf allar hliðar vel ef meta á heildar hagkvæmni af nýtingu skýjalausna.

 

Næstu skref

Eins og kom fram hér að ofan ættu fyrirtæki að íhuga það vel að skoða þann valkost að setja hluta af sínum upplýsingatæknirekstri í skýið. Algengast er að fara fyrst með þann hluta sem flokkast undir grunnþjónustu upplýsingatækni, s.s. Microsoft Office, rekstur póstþjóna, rekstur samskiptakerfa. En áður en slíkar ákvarðanir eru teknar skal taka stöðumat og meta hvar væri helst hægt að ná fram hagræðingu. Tilvalinn tímapunktar til að gera slíkt mat skiptir ekki öllu máli, en ef ég ætti að nefna einhvern þá væri það helst í tengslum við endurnýjun hugbúnaðarleyfissamninga.

Við hjá Expectus aðstoðum fyrirtæki við að greina og meta hugbúnaðarleyfisþörfina sem og að aðstoða fyrirtæki við að meta hvaða skýjalausnir myndu henta og á hvaða tímapunkti.

Tilgangurinn með þessum pistli var að varpa skýrara ljósi á hvað skýjalausnir eru og hvenær þær henta. Það væri gaman að heyra frá ykkur ef þið teljið ástæðu til að útskýra einhvern hluta af þessum atriðum nánar eða ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi ykkar ákvarðanir í þessum efnum sem við gætum mögulega aðstoðað ykkur við að svara.

Deila   
Sigurjón Hákonarson

Höfundur er ráðgjafi hjá Expectus.