444 9800
Vegmúla 2, 108 Reykjavík

Blogg

RoL = Return on Luck og 20 mílna gangan

Fyrir þá sem hafa lifað og hrærst í fjármálum og metið árangur fyrirtækja út frá hinum ýmsu kennitölum kann þessi nýjasta RoL úr bók Jim Collins að virðast ansi undarleg. Þar rýnir hann í hvað gerir það að verkum að sum fyrirtæki ná að skila árangri á hverju einasta ári í marga áratugi samfellt á meðan afkoma annarra sveiflast meira í takt við ytri aðstæður.

Rannsóknir sínar ber hann meðal annars saman við kapphlaup Ámundsen og Scott á Suðurpólinn í upphafi 20. aldar. Leiðangrar þeirra voru á margan hátt ólíkir en eitt af því sem skildi á milli var að agi Ámundsen um að ganga 20 mílur á hverjum degi óháð veðri, skilaði honum hraðar á leiðarenda. Matur og vistir entust alla leið. Leiðangur Scotts áði hins vegar þegar veður var verst en af þeim völdum miðaði hópnum seint og vistir þeirra höfðu ekki miðast við svo langa ferð.

Arðsemi heppninnar er með öðrum orðum fólgin í því hvernig ólíkir aðila nýta þau tækifæri sem þeim standa til boða með ólíkum hætti. Kjarninn í boðskapnum er að ástundun og agi (e. Discipline) er lykilþáttur í því að ná árangri ekki síst þegar á móti blæs. Þá þurfa stjórnendur að bregðast við aðstæðum, vinna úr þeim en ekki sætta sig við að skila tapi það árið vegna “ytri aðstæðna”.

Þetta þýðir ekki að ana þurfi áfram og láta sem menn sjái ekki erfiðleikana í umhverfinu, nei, þvert á móti þarf að beita þeim tólum og tækjum sem við höfum stjórn á til að bregðast við án þess að færa óþarfa fórnir. South West Airlines og Intel eru meðal fyrirtækja í þeim flokki sem Collins kallar Great by Choice, þ.e. þau hafa tamið sér vissar reglur í rekstri sem hjálpa þeim að þróast án þess að leggja allt undir. Þegar þau veðja á stórar breytingar í tækni eða aðferðum eru þau búin að gera tilraunir í minna mæli áður til að sannreyna að nýungarnar gangi upp eða láta aðra sjá um það fyrir sig og fylgja þeim síðan fast á eftir.

Þessi fyrirtæki telja sig verða að standa við skuldbindingar sínar gagnvart hluthöfum og markaðnum og ef afkoman er að þróast á óheillavænlegan veg innan ársins er allt kapp lagt á að breyta því sem starfsmenn og stjórnendur hafa vald á til að standast væntingar. Það mætti því kalla að að skila sínum 20 mílum á hverjum degi. Það er alltaf freistandi að gefa afslátt af árangrinum og grípa til skýringa í ytri aðstæðum en bestu fyrirtækin gera það ekki heldur bregðast við vandanum og skila sínu.

Það sem einkennir fyrirtæki í þessum flokki samkvæmt rannsóknum Collins er sjálfsagi, nýsköpun sem byggir á tilraunum, virkja óttann við að standast ekki væntingar og umfram allt mikil metnaður. Þau nýta lærdóm af mistökum en passa að mistökin verði aldrei það stór að þau velti fyrirtækinu. Lærdóminn nýta þau til að þróa rekstrarlíkanið yfir í uppskrift af árangri.

Ef til vill er þetta ágæt áminning fyrir okkur sem þurfum að lifa við þær ytri aðstæður sem fyrirtækjarekstri er búinn á Íslandi. Getur verið að stjórnendum fyrirtækja henti að kenna ytri aðstæðum um slaka afkomu. Hin hliðin á þessari stöðu birtist í því að fyrirtæki sem ná að þroskast og dafna við hátt vaxtastig eða önnur neikvæð ytri skilyrði geta verið að þróa uppskrift að árangri.

Skilyrði hafa verið mjög jákvæð í ferðaþjónustu undanfarin ár og horfur góðar. Það verður því forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki ná að snúa lukkunni sér í hag til langs tíma og skila árangri ef og þegar skilyrði breytast.

Deila   
Ragnar Guðgeirsson

Ragnar er ráðgjafi og partner hjá Expectus.