444 9800
Vegmúla 2, 108 Reykjavík

Blogg

Er innleiðing samfélagsábyrgðar fyrirtækja geimvísindi?

Samfélagsábyrgð í rekstri fyrirtækja er komin á kortið á Íslandi. Við höldum heilu ráðstefnurnar um málefnið og sérfræðingum og ráðgjöfum sem tileinka sér þekkingu um málefnið fjölgar hratt. Það ætti því að vera mun auðveldara en áður fyrir íslensk fyrirtæki að tileinka sér og innleiða samfélagslega ábyrga starfshætti. Samt veigra sumir sér við að ráðast í verkefnið og það virðist óyfirstíganlegt á köflum. Af hverju erum við að þessu? Hvernig eigum við að gera þetta? Hvar byrja? Hvenær? Hvenær erum við búin?

Samfélagsábyrgð fyrirtækja eru engin geimvísindi. Þetta snýst um að fyrirtækin geri það sem þau eru snillingar í að gera, á þann hátt að þau hámarki arðsemi sína á sama tíma og þau hafa jákvæð áhrif á alla þá innri og ytri hagsmunaaðila sem tengjast starfseminni. Alveg sama hvort þú ert stórt eða lítið fyrirtæki, í framleiðslugeira, fjármálastarfsemi eða hugverkasköpun, allir hafa sínar áskoranir að takast á við. Þess vegna er gott að vita að til eru verkfærakistur með margskonar aðferðafræði, tólum og tækjum til að hjálpa okkur við vinnuna.

Þegar ég ólst upp átti pabbi Willy’s jeppa. Við systurnar þrjár ferðuðumst með mömmu og pabba upp um fjöll og firnindi beltislausar, – í blæjubíl, – án veltigrindar eða loftpúða – en auðvitað með 50 kílóa dráttarspil….til að bjarga bílnum þegar við myndum festa okkur. Í dag er það sjálfsögð skynsemi og sjálfvirk aðgerð að spenna beltin og það eru ekki lengur framleiddir bílar án hverskonar öryggisútbúnaðar. En, það þurfti ákveðið átak til, – miklar og sterkar áherslur og hegðunarbreytingar þvert á allt þjóðfélagið til að gera þetta innbyggt í það að ferðast í bíl.

Þannig má segja að staðan sé með samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi (og víðar) í dag; lokamarkmiðið með áherslu á samfélagslega ábyrga starfshætti er að þeir verði sjálfsagður hluti af allri starfsemi fyrirtækisins. – Svona svolítið eins og að spenna bílbeltin án þessa að hugsa út í það áður en við keyrum af stað.

Er samfélagsábyrgð ekki bara sjálfsögð heilbrigð skynsemi? Er sjálfsagt það sama og að það gerist af sjálfu sér? Það er heilbrigð skynsemi að fara vel með náttúruna.

Það er heilbrigð skynsemi að vera heiðarleg í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það er heilbrigð skynsemi að fara vel með fjármuni fyrirtækisins. Það er heilbrigð skynsemi að starfa í sátt við nágranna fyrirtækisins, hvort sem það eru íbúar, önnur fyrirtæki eða náttúran og umhverfið almennt. Það er heilbrigð skynsemi að við deilum af snilldinni sem finnst í okkar fyrirtæki og gefum af okkur þannig að komandi kynslóðir verði með enn fleiri snillinga innanborðs í því sem við erum að gera svo vel. Við sjáum það bara sí og æ að það er ekki alltaf heilbrigð skynsemi sem verður ofan á, rétt eins og það var ekki sjálfsagt að spenna beltin í gamla daga. Heilbrigð skynsemi þarfnast þjálfunar, ekkert síður en aðrir sjálfsagðir hlutir sem við viljum gera rétt, eins og að hreyfa sig og borða rétt. Í dag er ekki óalgengt að fá þjálfun í að anda…

Grundvallaratriði í upphafi er að horfast á hreinskilinn hátt í augu við ástæðuna fyrir því að fyrirtækið hefur ákveðið að vinna með málefnið. Erum við að þessu af því að áhættumat og öryggisþættir ýta okkur út í það? Eða metum við sem svo að helgun og stolt starfsmanna standi og falli með samfélagslega ábyrgum starfsháttum? Höfum við einhvern æðri tilgang í huga, eða erum við hreinlega að hugsa um PR og ímynd? Er samfélagsábyrgð möguleg aðgreining fyrir okkar starfsemi á markaði eða er traust samfélagsins sem við störfum í afgerandi þáttur fyrir árangur fyrirtækisins? Eða, erum við að hugsa um alla þessa þætti til jafns?

Reynslan sýnir að það er fyrst og fremst hvati og skuldbinding æðstu stjórnenda sem hefur úrslitaáhrif á það hvort vel tekst til eða ekki með innleiðingu á samfélagslega ábyrgum starfsháttum. Við mótun stefnu um samfélagsábyrgð fylgjum við hefðbundnum aðferðum. Við greinum stöðuna, skilgreinum framtíðarsýnina, setjum okkur markmið, mörkum stefnuna, finnum hugsanlegar hindranir sem gætu stoppað okkur eða hægt á í vinnunni. – Forgangsröðum og innleiðum.

Það hefur sýnt sig að fyrirtæki ná mestu út úr vinnu með samfélagsábyrgð og sjálfbærni, þegar þau leggja áherslu á verkefni sem mæta bæði helstu áhyggjum ytri hagsmunaaðila annars vegar, og áherslu á þá stefnumarkandi þætti sem lykilstjórnendur og innri hagsmunaaðilar telja mikilvægasta fyrir framtíðarárangur fyrirtækisins á hverjum tíma hins vegar. Möguleikar á hámörkun árangurs innihalda þætti sem eru þegar með mikið vægi í báðum víddum. Þar sem oft á tíðum er erfitt að mæla ROI á sumum þáttum samfélagslegrar ábyrgðar, er þetta ákjósanleg aðferð til að tryggja árangur, þar sem leiða má líkum að því að þau verkefni sem veljast í áhersluflokk beintengist hvað mest árangri fyrirtækisins.

Póstflutningafyrirtækið UPS notaði þessa aðferð til að velja sínar áherslur, eins og greint er frá í Harvard Business Review í greininni „Sustainability a CFO can love“. Þeir söfnuðu saman öllum þeim þáttum sem skiptu máli í samfélagslegu samhengi og flokkuðu þá inn í rétt hólf miðað við vægi. Af rúmlega fjörutíu þáttum voru um 15 þættir sem voru það mikilvæg að flokkast inní efri hægri ferning. Mikilvægt í báðum víddum.

Við innleiðingu er mikilvægt að muna orðatiltækið góða; „Í upphafi skyldi endinn skoða“ og vera viss um að klára að innleiða það sem skiptir máli. Við hjá Expectus höfum valið að tileinka okkur aðferðafræði frá FranklinCovey sem snýst um að framfylgja stefnumótun og innleiða alla leið, en hún er kölluð 4DX og stendur fyrir 4 Disciplines of Execution. Hún tekur við þegar búið er að móta stefnuna og flokkun og forgangsröðun úrbótatækifæra og verkefna er næst á dagskrá. Hægt er að flokka flest verkefni sem fyrirtæki standa frammi fyrir í þrjá megin flokka:

  • Pennastrik – aðgerðir sem hægt er að framkvæma með því einfaldlega að ákveða það (hafir þú fjármagn og völd til þess)
  • Hvirfilvindurinn – inniheldur öll þau verkefni sem þarf að stjórna dags daglega til að halda starfseminni gangandi.
  • Hegðunarbreytingar – verkefni sem krefjast breytingar í hegðun til þess að árangur náist. Þetta eru lang erfiðustu verkefnin í innleiðingu á stefnu og þau sem græða mest á 4DX innleiðingu.

Innleiðing á samfélagsábyrgð snýst oftar en ekki um hegðunarbreytingar þvert á fyrirtækið. Ólíkt flestri hefðbundinni þjálfun í innleiðingu stefnu snýst 4DX ekki einungis um virka stefnumörkun heldur einnig um einfalda „common sense“ aðferð við að hjálpa stjórnendum að skapa raunverulegar forsendur til að hrinda stefnunni í framkvæmd.

Markmiðið er að samfélagsleg ábyrgð verði þaulæfð og sjálfvirk heilbrigð skynsemi – rétt eins og að spenna beltin.

Deila   
Anna Björk Bjarnadóttir

Framkvæmdastjóri / Managing Director Expectus Software │ Ráðgjafi / Consultant